Aprílgabb Fréttablaðsins 2009?

Iron Man 2 til Íslands

Stór sena fyrir bandarísku stórmyndina Iron Man 2 verður tekin upp í nágrenni Svínafellsjökuls eftir páska. Áheyrnarprufur fara fram í myndasögubúðinni Nexus í dag.

Stór hópsena fyrir bandarísku stórmyndina Iron Man 2 verður tekin upp í nágrenni við Svínafellsjökul strax eftir páska. Þetta hefur Fréttablaðið eftir áreiðanlegum heimildum. Hópur leikmunasmiða er væntanlegur til landsins fyrir helgi og er reiknað með að vinna við leikmyndina hefjist strax á laugardaginn. Reykjavik Castings hefur boðað til áheyrnarprufa í spilasal Nexus við Hverfisgötu í dag klukkan tólf og staðfesti framkvæmdastjóri fyrirtækisins það í samtali við Fréttablaðið. "Þeir þurfa í kringum hundrað manns, af öllum stærðum og gerðum," segir Alexía Björg Jóhannesdóttir hjá Reykjavík Casting.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru tvær ástæður fyrir að ákveðið var að taka senuna á Íslandi. Hækkun endurgreiðslu til kvikmyndagerðarmanna og veik staða krónunnar vógu þar þungt en leikstjórinn mun einnig hafa heillast af landslaginu við Svínafellsjökul. Um er að ræða sama svæði og notast var við í Batman Begins.

Leikstjóri Iron Man 2 er Jon Favreau og mun hann koma hingað til lands ásamt fimmtíu manna tökuliði. Ekki er talið líklegt að stjörnur leikhópsins verði með í för. Með aðalhlutverk í Iron Man fer Robert Downey Jr. en af öðrum leikurum í myndinni má nefna Scarlett Johansson og Mickey Rourke. Fyrsta Iron Man-myndin sló í gegn um allan heim í fyrra. Iron Man 2 verður frumsýnd á næsta ári.

Fulltrúi frá framleiðendum myndarinnar var væntanlegur í gærkvöldi en hann mun aðstoða Reykjavik Casting við að velja rétta fólkið. Gísli Einarsson, eigandi myndasöguverslunarinnar Nexus, var að vonum spenntur yfir þessu öllu þegar Fréttablaðið náði tali af honum. "Já, þetta er auðvitað frábært og það var minnsta málið að leyfa þeim að fá afnot af salnum undir svona áheyrnarprufu." 


Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband